Fundur verður haldinn í Íslenska stærðfræðafélaginu fimmtudaginn 23. apríl kl 16:45 í stofu VR-158 í HÍ. (Húsi Verkfræði-og náttúruvísindasviðs við Hjarðarhaga.)

Fundurinn hefst með hefðbundnum kaffiveitingum, en kl 17:15 heldur Finnur Lárusson stærðfræðingur við Adelaide-háskóla í Ástralíu fyrirlestur sem ber yfirskriftina:

Sveigjanleiki og stjarfi í fágaðri rúmfræði
Alþjóðleg ráðstefna um tvinnfallagreiningu og fágaða rúmfræði verður haldin dagana 24.-26. apríl í Háskóla Íslands, Nordan 2015. Þessum fyrirlestri er ætlað að gefa breiðum áheyrendahópi örlitla innsýn í nýjustu rannsóknir á þessu sviði. Fjallað verður um sveigjanleika og stjarfa, grundvallarfyrirbæri sem togast á í fágaðri rúmfræði. Fyrirlesturinn ætti að vera aðgengilegur öllum sem lokið hafa fyrsta námskeiði í tvinnfallagreiningu. Af tillitssemi við erlenda gesti hefur fyrirlesarinn verið beðinn að tala ensku.