Lektor í stærðfræði við Raunvísindadeild

Benedikt Magnússon, nóvember 22, 2015

Laust er til umsóknar fullt starf lektors í stærðfræði við Raunvísindadeild. Starfið er á sviði hagnýttrar stærðfræði.pallas_athena_positivblue

Viðkomandi þarf að búa yfir frumkvæði og skipulagshæfni til þess að byggja upp öflugt rannsóknarstarf og rannsóknartengt nám í hagnýttri stærðfræði í samstarfi við aðrar deildir Verkfræði- og náttúruvísindasviðs. Nýlega var stofnuð ný námsleið í hagnýttri stærðfræði fyrir nemendur í grunnnámi og mun lektorinn gegna því hlutverki að móta hana frekar. Jafnframt mun lektorinn kenna stærðfræði í grunn- og framhaldsnámi.

Lektorinn þarf að vera ötull í rannsóknum og æskilegt er að þær séu í þeim greinum hagnýttrar stærðfræði, sem tengjast stærðfræðigreiningu. Til dæmis í greinum þar sem fjallað er um (tölulegar) lausnir á diffurjöfnum og hlutafleiðujöfnum, hreyfikerfi, nálgunarfræði eða tölulega greiningu. Ennfremur er æskilegt að umsækjendur hafi reynslu af því að beita stærðfræði á hagnýt verkefni.

Lektornum verður gert kleift að ráða til sín nýdoktor til tveggja ára.

Umsækjendur skulu hafa lokið doktorsprófi í stærðfræði og vera sjálfstæðir í rannsóknum. Þeir skulu hafa staðgóða þekkingu á stærðfræðigreiningu og nokkur kennslureynsla er æskileg. Auk þess er krafist góðrar samstarfshæfni og lipurðar í mannlegum samskiptum.

Ráðið verður í starfið til fimm ára með möguleika á ótímabundinni ráðningu að þeim tíma liðnum sbr. 3. mgr. 31. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Rektor er heimilt að veita framgang í starfi strax við nýráðningu uppfylli viðkomandi þau skilyrði.

Um meðferð umsókna, mat á hæfi umsækjenda og ráðningu í starfið er farið eftir ákvæðum laga um opinbera háskóla nr. 85/2008 og reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.

Umsóknarfrestur er til 4. janúar 2016. Gert er ráð fyrir að viðkomandi hefji störf þann 1. ágúst 2016.

Umsækjendur skulu láta fylgja umsókn sinni vottorð um námsferil sinn og störf, ritaskrá, skýrslu um vísindastörf og önnur störf sem þeir hafa unnið og greinargerð um áform ef til ráðningar kemur. Í umsókn skal koma fram hver ritverka sinna, allt að átta talsins, umsækjandi telur veigamest með tilliti til þess starfs sem um ræðir. Umsækjandi sendir eingöngu þessi ritverk sín með umsókn, eða vísar til þess hvar þau eru aðgengileg á rafrænu formi. Þegar fleiri en einn höfundur stendur að innsendu ritverki skulu umsækjendur gera grein fyrir framlagi sínu til verksins. Ennfremur er ætlast til þess að umsækjendur láti fylgja með umsagnir um rannsóknir sínar sem og kennslu- og stjórnunarstörf eftir því sem við á.

Laun eru skv. kjarasamningi Félags háskólakennara og fjármálaráðherra.

Umsóknir skulu berast á rafrænu formi á netfangið bmz@hi.is merkt HI15110122. Umsókn og umsóknargögn sem ekki er skilað rafrænt skal skila í tvíriti til vísindasviðs Háskóla Íslands, Sæmundargötu 6, 101 Reykjavík. Öllum umsækjendum verður svarað og þeim tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun hefur verði tekin.
Nánari upplýsingar um starfið veitir Jón Ingólfur Magnússon, prófessor og námsbrautarstjóri í stærðfræði. Sími 525-4731 og netfang jim@hi.is.

Við ráðningu í störf í Háskóla Íslands er tekið mið af jafnréttisáætlun skólans.

Á Verkfræði- og náttúruvísindasviði starfa 360 manns við rannsóknir og kennslu á sviði verkfræði og náttúruvísinda. Starfsumhverfið er alþjóðlegt enda eykst sífellt hlutfall erlendra starfsmanna og nemenda við sviðið, en fjórðungur bæði starfsmanna og framhaldsnema eru erlendir. Nemendur Verkfræði- og náttúruvísindasviðs eru um 2300 talsins í sex deildum. Þar af eru 350 í meistaranámi og 150 í doktorsnámi. Rannsóknarstofnanir sviðsins eru Jarðvísindastofnun og Eðlisvísindastofnun sem tilheyra báðar Raunvísindastofnun, Líf- og umhverfisvísindastofnun, Verkfræðistofnun og Stofnun Sæmundar fróða sem er þverfræðileg stofnun og heyrir undir öll fræðasvið háskólans.

Stærðfræðingahópurinn á Verkfræði og náttúruvísindasviði tilheyrir Raunvísindadeild. Verkefni hópsins felast í rannsóknum á ýmsum sviðum hreinnar og hagnýttrar stærðfræði, kennslu og leiðbeiningu framhaldsnema í ýmsum greinum stærðfræði, kennslu BS-nema í stærðfræði og umfangsmikilli kennslu nemenda í öðrum greinum, einkum verkfræði. Framtíðarmarkmið hópsins eru að auka rannsóknaumsvif enn frekar að magni og gæðum og afla meiri styrkja til alþjóðlegs samstarfs sem og ráðningar nýdoktora og framhaldsnema. Hvað varðar kennslu er stefnan að áfram verði boðið upp á vandað og metnaðarfullt nám sem svarar kröfum nútímans varðandi innihald og kennsluaðferðir.

Sérstaklega er stefnt að markvissri notkun tölvu- og upplýsingatækni í kennslu jafnframt því að góður fræðilegur skilningur nemenda er byggður upp.

Háskóli Íslands er stærsta kennslu-, rannsókna- og vísindastofnun Íslands og er í hópi 300 bestu háskóla heims samkvæmt nýjum matslista Times Higher Education.