Sérfræðingur í hagnýttri stærðfræði við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands

Laust er til umsóknar fullt starf sérfræðings í hagnýttri stærðfræði við stærðfræðistofu Raunvísindastofnunar Háskólans.

Stærðfræðistofa Raunvísindastofnunnar er rannsóknavettvangur stærðfræðinga við Háskóla Íslands og eru þar stundaðar rannsóknir á ýmsum sviðum hreinnar og hagnýttrar stærðfræði. Stærðfræðingar við Háskóla Íslands annast einnig kennslu í grunn- og framhaldsnámi jafnframt því að vera leiðbeinendur í rannsóknatengdu námi. Framtíðarmarkmið stærðfræðingahópsins eru að styrkja rannsóknastarfið enn frekar með fleiri og betri birtingum, afla meiri styrkja til alþjóðlegs samstarfs og ráða til skólans nýdoktora og framhaldsnema.

Sérfræðingnum, sem starfið hlýtur, er ætlað að stunda rannsóknir í hreyfikerfum og verður hann að hafa sterkan fræðilegan bakgrunn sem og einhverja reynslu af forritun. Þekking á stýritækni, merkjafræði, líffræðilegum stærðfræðilíkönum eða slembnum kerfum er æskileg. Um kennsluskyldu verður samið sérstaklega, þó þannig að kennsla verði einungis lítill hluti starfsins. Ráðið verður í starfið til tveggja ára frá og með 1. september 2017, eða samkvæmt samkomulagi, með mögulegri framlengingu um eitt ár.

Umsækjandi skal hafa lokið doktorsprófi í stærðfræði þegar hann hefur störf. Æskilegt er að ekki hafi liðið lengri tími en fimm ár frá því umsækjandi lauk doktorsprófi þegar hann tekur við starfinu. Tekið verður tillit til hversu vel rannsóknir umsækjanda falla að áherslusviðum stofunnar í rannsóknum. (Sjá vefsíðuna math.hi.is).

Um hæfi umsækjenda og meðferð umsókna fer eftir ákvæðum laga um opinbera háskóla nr. 85/2008 og reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.

Umsóknarfrestur er til og með 17. apríl 2017. Áætað er að starfið hefjist 1. september 2017 eða skv. samkomulagi.

Umsóknir skulu berast á netfangið bmz@hi.is merkt í efnislínu: HI17030009. Umsækjendur skulu láta fylgja umsókn sinni 1) vottorð um námsferil sinn og störf, 2) akademíska ferilskrá (Curriculum Vitae), 3) ritaskrá, 4) skýrslu um vísindastörf og önnur störf sem þeir hafa unnið, 5) greinargerð um rannsóknaráform ef til ráðningar kemur, 6) upplýsingar um þrjá mögulega umsagnaraðila sem hafa má samband við. Í umsókn skal koma fram hver ritverka sinna, allt að átta talsins, umsækjandi telur veigamest með tilliti til þess starfs sem um ræðir. Umsækjandi sendir eingöngu þessi ritverk sín með umsókn, eða vísar til þess hvar þau eru aðgengileg á rafrænu formi. Þegar fleiri en einn höfundur stendur að innsendu ritverki skulu umsækjendur gera grein fyrir framlagi sínu til verksins. Enn fremur er ætlast til þess að umsækjendur láti fylgja með umsagnir um stjórnunarstörf sín eftir því sem við á. Umsókn og umsóknargögnum sem ekki er skilað rafrænt skal skila í tvíriti til vísindasviðs Háskóla Íslands, Sæmundargötu 6, 101 Reykjavík. Öllum umsækjendum verður svarað og þeim tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun hefur verið tekin.

Laun eru samkvæmt kjarasamningi Félags háskólakennara og fjármálaráðherra.

Nánari upplýsingar veitir forstöðumaður stærðfræðistofu Jón Ingólfur Magnússon, prófessor á netfangið jim@hi.is.

Við ráðningar í störf við Háskóla Íslands og stofnunum hans er tekið mið að jafnréttisáætlun Háskólans.

Háskóli Íslands er framsækin vísinda- og fræðslustofnun sem nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar. Við Háskóla Íslands eru yfir 14.000 nemendur og um það bil 1.300 fastráðnir starfsmenn. Verkfræði- og náttúruvísindasvið er eitt fimm fræðasviða skólans. Við sviðið er boðið upp á grunn- og framhaldsnám í öllum helstu greinum verkfræði og náttúruvísinda. Raunvísindastofnun Háskólans er vettvangur rannsókna í stærðfræði, eðlisfræði, efnafræði og jarðvísindum.

Á Verkfræði- og náttúruvísindasviði starfa 360 manns við rannsóknir og kennslu á sviði verkfræði og náttúruvísinda. Starfsumhverfið er alþjóðlegt enda eykst sífellt hlutfall erlendra starfsmanna og nemenda við sviðið, en fjórðungur bæði starfsmanna og framhaldsnema eru erlendir. Nemendur Verkfræði- og náttúruvísindasviðs eru um 2300 talsins í sex deildum. Þar af eru 350 í meistaranámi og 150 í doktorsnámi. Rannsóknarstofnanir sviðsins eru Jarðvísindastofnun og Eðlisvísindastofnun sem tilheyra báðar Raunvísindastofnun, Líf- og umhverfisvísindastofnun, Verkfræðistofnun og Stofnun Sæmundar fróða sem er þverfræðileg stofnun og heyrir undir öll fræðasvið háskólans.

Háskóli Íslands er stærsta kennslu-, rannsókna- og vísindastofnun Íslands og er í hópi 250 bestu háskóla heims samkvæmt nýjum matslista Times Higher Education.