Lokaverkefni í hagnýttri tölfræði (MAS)
Stella Kristín Hallgrímsdóttir
Titill: Samband veðurs og komufjölda á bráðamóttökur Landspítala
Staðsetning: V-157, VRII
Tímasetning: Mánudaginn 29. maí, klukkan 14:00.
Ágrip:
Markmið þessarar rannsóknar var að gera grein fyrir árstíða- og vikusveiflum í komufjölda á bráðamóttökur Landspítala og meta áhrif veðurfars á komufjölda. Skoðaðar voru fjórar bráðamóttökur; bráðamóttakan í Fossvogi, bráðamóttaka Barnaspítala Hringsins, Hjartagátt og bráðaþjónusta geðsviðs. Þær veðurbreytur sem mest voru skoðaðar eru hitastig, vindhraði, úrkoma og skýjahula. Líkt var eftir árstíðasveiflum með sínus- og kósínusbylgjum og með hjálp línulegrar aðhvarfsgreiningar var búin til breyta sem lýsir árstíðasveiflum og línulegri aukningu í komufjölda. Smíðuð voru nokkur ARIMA líkön til að spá fyrir um komufjölda á bráðamóttökuna í Fossvogi og bráðamóttöku Barnaspítala Hringsins og þau borin saman til að finna besta spálíkanið fyrir hvora bráðamóttöku. Til að meta hvort veður hafi áhrif á komufjölda á bráðamóttökur var veðurbreytum einni í einu bætt inn í spálíkan og skoðað hvort mát- og spágæði líkansins aukist við að fá upplýsingar um veður. Einnig var höfuðþáttagreiningu beitt til að taka veðurbreytur saman og búa til nýjar breytur sem eiga að lýsa ákveðnum veðurgerðum. Þessum nýju breytum var einnig bætt inn í spálíkön til að meta áhrif þeirra á gæði líkansins. Niðurstöður sýna að upplýsingar um veður bæta spá um komufjölda á bráðamóttökunni í Fossvogi lítillega en auka staðalspáskekkju á bráðamóttöku barna. Það á bæði við um þegar hver veðurbreyta er skoðuð fyrir sig sem og þegar veðurbreytur hafa verið settar saman með höfuðþáttagreiningu. Því má draga þá ályktun að veður hafi ekki áhrif á komufjölda á bráðamóttöku barna en það hafi minniháttar áhrif á komufjölda á bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi. Ennfremur sýna niðurstöður að vel megi þróa gott spálíkan fyrir komufjölda á bráðamóttökur Landspítala einungis með upplýsingum um árstíðasveiflur og vikusveiflur.
Leiðbeinandi: Dr. Sigrún Helga Lund og Dr. Tryggvi Helgason
Prófdómari: Dr. Ólafur Pétur Pálsson