Lektor í stærðfræði við Raunvísindadeild

Laust er til umsóknar fullt starf lektors í stærðfræði við Raunvísindadeild. Starfið er á sviði hagnýttrar stærðfræði.pallas_athena_positivblue

Viðkomandi þarf að búa yfir frumkvæði og skipulagshæfni til þess að byggja upp öflugt rannsóknarstarf og rannsóknartengt nám í hagnýttri stærðfræði í samstarfi við aðrar deildir Verkfræði- og náttúruvísindasviðs. Nýlega var stofnuð ný námsleið í hagnýttri stærðfræði fyrir nemendur í grunnnámi og mun lektorinn gegna því hlutverki að móta hana frekar. Jafnframt mun lektorinn kenna stærðfræði í grunn- og framhaldsnámi.

Lektorinn þarf að vera ötull í rannsóknum og æskilegt er að þær séu í þeim greinum hagnýttrar stærðfræði, sem tengjast stærðfræðigreiningu. Til dæmis í greinum þar sem fjallað er um (tölulegar) lausnir á diffurjöfnum og hlutafleiðujöfnum, hreyfikerfi, nálgunarfræði eða tölulega greiningu. Ennfremur er æskilegt að umsækjendur hafi reynslu af því að beita stærðfræði á hagnýt verkefni.

Lektornum verður gert kleift að ráða til sín nýdoktor til tveggja ára.