Sérfræðingur í stærðfræði eða stærðfræðilegri eðlisfræði við Raunvísindastofnun

Laust er til umsóknar fullt starf sérfræðings í stærðfræði eða stærðfræðilegri eðlisfræði við stærðfræðistofu Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands.

Sérfræðingnum er ætlað að stunda rannsóknir í stærðfræði eða stærðfræðilegri eðlisfræði. Umsækjendur skulu hafa sýnt fram á árangur í rannsóknum í öðru eða báðum ofangreindum fagsviðum. Tekið verður tillit til hversu vel rannsóknir umsækjenda falla að áherslusviðum stærðfræðistofu.

Kennsluskylda fylgir ekki starfinu en möguleg kennsla akademískra sérfræðinga Raunvísindastofnunar við Verkfræði- og náttúruvísindasvið (Raunvísindadeild) er samkvæmt samkomulagi sérfræðinga við stjórn Raunvísindastofnunar í samræmi við 10. gr reglna Raunvísindastofnunar Háskólans nr. 685/2011.

Umsækjendur skulu hafa lokið doktorsprófi í stærðfræði eða stærðfræðilegri eðlisfræði. Æskilegt er að ekki hafi liðið lengri tími en fimm ár frá því umsækjandi lauk doktorsprófi þegar hann tekur við starfinu. Að auki er krafist góðrar samstarfshæfni og lipurðar í mannlegum samskiptum.